Kolmunnaskipin fengu ágætan afla á gráa svæðinu suður af Færeyjum í gær. Bjarni Ólafsson AK fékk þá 550 tonn eftir að hafa togað í 15 tíma, Beitir NK fékk 450 tonn eftir 16 tíma og Börkur NK 400 tonn eftir 12 tíma. Það er ljóst að kolmunnaveiðin er hafin og þokkalegur kraftur í henni.
Heimasíðan heyrði í skipstjórnarmönnum nú síðdegis en þá voru skipin að dæla. Runólfur Runólfsson skipstjóri og Þorkell Pétursson stýrimaður á Bjarna Ólafssyni sögðu að útlitið væri gott á miðunum en þá var áhöfnin að dæla um 650 tonna holi sem fékkst eftir að dregið hafði verið í 15 tíma. „Þetta er hol númer tvö og þetta byrjar bara vel. Við erum svolítið austarlega að veiða og það er áhyggjuefni því fiskurinn gæti þá verið að ganga inn í skoska lögsögu. Við viljum að hann gangi vestar. Annars hafa skipin verið að fá gott hérna, Polar Amaroq var til dæmis að dæla 400 tonnum núna,“ segir Runólfur.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir einnig að veiðin fari vel af stað. „Við erum að dæla núna eftir að hafa togað í um 18 tíma. Ég gæti trúað að það væru um 500 tonn í hjá okkur en það kemur betur í ljós þegar dælingu er lokið. Það er að byrja að ganga fiskur hérna inn á gráa svæðið og vonandi á þetta eftir að verða mjög gott,“ segir Hjörvar.
Tómas Kárason skipstjóri á Beiti upplýsir að það eigi að fara að hífa og hann teldi að væri gott í. „Menn eru bara brattir. Veiðin byrjaði í gær og þetta lítur býsna vel út. Það var talsvert að sjá í nótt og í morgun og ég held að holið núna sé fínt. Ég held að menn geti bara verið bjartsýnir á góða veiði,“ segir Tómas.