Janúar hefur verið góður kolmunnamánuður

Nú er kolmunnaveiðum Síldarvinnsluskipa og annarra skipa sem landa hjá fyrirtækinu að ljúka að sinni. Framundan er loðnuvertíð. Beðið er eftir niðurstöðum loðnuleiðangursins sem er að ljúka en margir eru bjartsýnir á að kvótinn sem þegar hefur verið gefinn út verði aukinn. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 2.500 tonnum af kolmunna í Neskaupstað og Börkur NK er að landa 2.300 tonnum á Seyðisfirði. Þá er Beitir NK á landleið með 1.720 tonn. Barði NK hefur verið að loðnuveiðum að undanförnu og aflað vel rétt eins og grænlensku skipin Polar Ammassak og Polar Amaroq. Síðustu daga hefur skipum verið að fjölga á loðnumiðunum og nú eru meðal annars norsk skip komin á miðin.

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, segir að verulega hafi dregið úr kolmunnaveiðinni á gráa svæðinu síðustu daga. „Þessi 2.300 tonn sem við komum með fengust í einum tíu holum og sum þeirra voru býsna löng eða allt upp í 20 tíma. Það hefur semsagt hægst á veiðinni. Þessi mánuður hefur verið fínn kolmunnamánuður og framan af var mokveiði. Nú verður allt græjað fyrir loðnuna, við erum með trollið klárt og tökum væntanlega nót líka. Menn gera sér vonir um að bætt verði við kvótann og framundan sé góð loðnuvertíð,“ segir Hálfdan.