Beitir NK með gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Kolmunnaveiðum Síldarvinnsluskipa fer brátt að ljúka. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í nótt með tæp 1.630 tonn en Barði, Börkur og Bjarni Ólafsson eru á miðunum. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, í morgun og spurði hvernig veiðarnar hefðu gengið. „Það má segja að þær hafi gengið ágætlega. Það er dregið að jafnaði í eina 18 tíma og aflinn hjá okkur var gjarnan á bilinu 300 til 380 tonn í holi. Við vorum að veiðum sunnan við Þórsbanka, 7-8 mílur norðvestur af miðlínunni á milli Færeyja og Íslands. Kolmunnaveiðarnar eru að klárast hjá Síldarvinnsluskipunum en það eru svo sannarlega næg verkefni framundan. Við erum núna að fara síðasta túrinn á norsk-íslensku síldina og að honum loknum er áreiðanlega íslensk sumargotssíld á dagskrá. Svo er það loðnuvertíðin sem framundan er. Hún verður risavaxin og menn eru spenntir fyrir henni. Svona vertíð er ærið verkefni og það þurfa allir að láta hendur standa fram úr ermum þegar hún hefst,“ segir Tómas.