Börkur NK.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBörkur NK er á landleið með fullfermi af kolmunna og er þetta síðasta veiðiferð hans á yfirstandandi vertíð. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í fyrramálið. Hákon EA er einnig á landleið og kemur til Neskaupstaðar í dag. Beitir NK kom úr sinni síðustu veiðiferð á vertíðinni um sl. helgi.

Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki sagði að framan af þessari síðustu veiðiferð hefði veður verið óhagstætt en undir lokin batnaði það og þá brast á mokveiði.  Skipið var fyllt í 6 eða 7 holum en Börkur lestar 1800 tonn.  Veiðisvæðið var 40-50 mílur suð-suðvestur af Akrabergi en Akrabergið er syðsti oddi Færeyja.

Sturla sagði að engin ástæða væri til annars en að vera ánægður með kolmunnavertíðina. Oft hefði veiði verið góð en brælur hefðu þó verið býsna þrálátar á miðunum suður af Færeyjum.
Að loknum kolmunnaveiðunum munu Síldarvinnsluskipin, Börkur og Beitir, gera hlé á veiðum þar til síldar- og makrílvertíð hefst í júnímánuði. Mun hléið verða notað til ýmissa viðhaldsverkefna og mun Beitir m.a. fara til Akureyrar í slipp næstkomandi þriðjudag.