Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Seyðisfjarðar í fyrramálið með 1600 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði segir að það sé ávallt fagnaðarefni þegar hráefni berst til verksmiðjunnar. Í janúarmánuði bárust tæplega 4000 tonn af kolmunna en hins vegar kom engin loðna til Seyðisfjarðar enda allri loðnu á vertíðinni landað til manneldisvinnslu. „Við erum alltaf bjartsýnir hérna og eigum von á góðri kolmunnaveiði á næstunni og þá berst hráefni til okkar. Við erum alltaf tilbúnir að taka á móti hráefni og hefja vinnslu,“ sagði Gunnar.
Beitir NK er á leiðinni til Neskaupstaðar með 2900 tonn af kolmunna og er væntanlegur í kvöld.