Beitir NK og Börkur NK í stórrigningunni í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Börkur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með 2250 tonn af kolmunna eða fullfermi. Beitir NK kom síðan í morgun með 3050 tonn. Gert er ráð fyrir að landað verði úr skipunum jafnóðum og hráefnið er unnið því betra er að geyma það kælt um borð í þeim en í hráefnistönkum fiskimjölsverksmiðjunnar. 

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki segir að veiðarnar hafi gengið nokkuð vel. „Við vorum að veiða á gráa svæðinu suður af Færeyjum alveg við skosku línuna. Þar var flotinn að veiðum. Aflann fengum við í sjö holum en við vorum sex daga að veiðum. Fiskurinn sem þarna fæst er stór og góður,“ segir Hálfdan. 

Tómas Kárason skipstjóri á Beiti tekur undir með Hálfdani og segir að um ágætan fisk sé að ræða. „Við fengum aflann í 11 holum, en reyndar var lítið í fyrsta holinu. Holin voru gjarnan að gefa 300-350 tonn og einu sinni fengum við 450 tonna hol. Það var dregið í 15-24 tíma,“ segir Tómas. 

Skipin munu ekki halda á ný til veiða fyrr en eftir hátíðar, en fram kom hjá skipstjórunum að áhafnirnar bíði spenntar eftir fréttum úr loðnuleiðangrinum sem nýlega er lokið.