Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar sl. vetur. Ljósm: Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK kemur til löndunar sl. vetur. Ljósm: Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK landaði 1250 tonnum af kolmunna í Neskaupstað aðfaranótt laugardags. Í kjölfar hans kom síðan Börkur NK og landaði 1000 tonnum. Aflinn fékkst í Rósagarðinum og segir Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki að veiðin hafi verið orðin þokkaleg undir lok veiðiferðarinnar. Að lokinni löndun hélt Bjarni Ólafsson til kolmunnaveiða á ný en Börkur sigldi vestur fyrir land til síldveiða. Hjörvar segir að þeir hafi komið á miðin í Jökuldýpinu í nótt og geri ráð fyrir að byrja að toga fljótlega. „Það var rólegt á miðunum í gær og enn rólegra í nótt en ágætis afli fékkst fyrir tveimur – þremur dögum. Þetta hlýtur að lagast á ný,“ sagði Hjörvar. „Birtingur var að kasta hér í Jökuldýpinu og við erum að nálgast hann. Þeir fengu 170 tonn í gær en það var lítið að hafa í nótt hjá þeim,“ sagði Hjörvar að lokum.