Kolmunna landað úr Berki NK í Neskaupstað í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Í morgun kom Börkur NK til Neskaupstaðar með 3.175 tonn af kolmunna og norska skipið Slatterøy kom til Seyðisfjarðar með 3.400 tonn. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og bað hann um að segja stuttlega frá veiðiferðinni. „Þessi afli fékkst í einum 10 holum en það var tekið eitt hol á dag. Veitt var syðst á Færeyjabanka. Aflinn var misjafn. Hann var góður fyrsta daginn, síðan var dræmt í nokkra daga en úr þessu rættist síðan undir lokin. Holin voru misjafnlega stór eða frá rúmum 200 tonnum og upp í tæp 600 tonn. Veður var sæmilegt. Það komu stuttar brælur en við létum þær ekki trufla okkur mikið. Við reiknum með að halda áfram kolmunnaveiðum fyrst loðnan lætur bíða eftir sér. Næst verður væntanlega haldið á kolmunnamiðin vestur af Írlandi en þar hefur verið mikill fiskur á ferðinni og hörkuveiði. Það eru tæpar 900 mílur á miðin vestur af Írlandi þannig að það er býsna langt að fara. Við fylgjumst auðvitað með öllum loðnufréttum og menn eru bara bjartsýnir. Við urðum varir við loðnu úti á Þórsbanka á landleiðinni,“ segir Hjörvar.

Landað úr norska skipinu Slatterøy á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason