Börkur NK að toga á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að toga á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Norska skipið Manon kom til Neskaupstaðar sl. föstudag með 1.900 tonn af kolmunna. Í kjölfar hans kom síðan Börkur NK á sunnudagsmorgun með tæplega 2.300 tonn. Bjarni Ólafsson AK landaði tæplega 1.800 tonnum á Seyðisfirði aðfaranótt sunnudagsins. Þetta var fyrsti kolmunninn sem berst til Seyðisfjarðar á árinu en í Neskaupstað hefur verið tekið á móti um 5.800 tonnum.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að vel hafi gengið að fylla skipið. „Við fengum aflann í sex holum þannig að það gekk vel að veiða. Veiðisvæðið var um 300 mílur suður af Rockall en það er sunnan við mitt Írland. Við þurftum að sigla 790 mílur heim til að landa og það er andskoti langt. Á þessu svæði eru oft leiðinleg veður á þessum árstíma og þarna er búin að vera bræla síðan í gær. Auðvitað ættum við að vera á loðnu núna í staðinn fyrir að vera að veiða kolmunnann þarna. Við erum nú á leiðinni á kolmunnamiðin og á Papagrunninnu voru loðnutorfur út um allt, á 17 mílna svæði. Og það hafa borist fréttir af loðnu út á Verkamannabanka sem er suður við færeysku línuna. Ég hef aldrei heyrt um loðnu svo sunnarlega. Það hefur gengið illa að mæla nægilega mikla loðnu svo unnt sé að gefa út kvóta en ég hef trú á því að það muni takast á endanum. Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og hér um borð eru menn það,“ segir Hjörvar.