Sey2018

Fiskimjölsverkmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm: Ómar Bogason

                Margrét EA kemur til Seyðisfjarðar í dag með 1.300 tonn af kolmunna sem fékkst vestur af Írlandi. Þetta er fyrsta hráefnið sem berst til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði síðan í desember sl. Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri segir að það sé ávallt fagnaðarefni þegar hráefni fæst eftir vinnsluhlé. „Það er ágætt að fá ekki alltof stóran skammt í upphafi. Við munum gangsetja verksmiðjuna í kvöld og það þarf að ná úr henni hrollinum eftir hlé eins og þetta. Við þurfum að finna menn til starfa vegna þess að fimm menn frá okkur eru nú í verksmiðjunni í Helguvík. Við gerum okkur vonir um að þessi kolmunni sé ágætt hráefni en annars er að minnka í honum fitan á þessum árstíma,“ sagði Gunnar.

                Nú þegar íslensk skip hafa lokið loðnuveiðum mun þeim fjölga hratt á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Bjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða í fyrradag og Börkur NK í gær.