Barði NK heldur til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í dag. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði hann fyrst hvar hann teldi vera veiðivon. „Ég reikna með að við förum beinustu leið í Rósagarðinn. Þar var mjög góð veiði í fyrra í byrjun októbermánaðar og við fengum þar nokkra fullfermistúra á Bjarna Ólafssyni AK. Mig minnir að við höfum tekið þar eina fjóra túra. Við höldum til veiða fullir bjartsýni en verst er að spáin er heldur ljót fyrir sunnudag og mánudag. Við á Barðanum erum fullir bjartsýni og líst vel á að byrja á kolmunnanum. Það er ekkert skip farið að reyna við kolmunnann núna þannig að við verðum fyrstir og það er auðvitað ákveðin spenna fólgin í því að vera fyrstir til að hefja veiðar,“ segir Þorkell.