Áfram berst kolmunni til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með rúm 3.000 tonn og færeyski báturinn Fagraberg er væntanlegur í fyrramálið með 2.700 tonn. Norski báturinn Slåtterøy kom til Seyðisfjarðar í gær með rúm 3.200 tonn. Frá áramótum hefur verksmiðjan í Neskaupstað tekið á móti um 23.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 21.500 tonnum. Verksmiðjustjórarnir, Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði og Hafþór Eiríksson í Neskaupstað, segja að hráefnið sem verksmiðjurnar eru að fá sé afar gott og vinnslan gangi vel. Gæði hráefnisins ræðst meðal annars af því að veiðin vestur af Írlandi er góð og því stoppa skipin stutt á miðunum ásamt því að aflinn er vel kældur um borð. Þó að siglingin frá miðunum til Íslands sé löng kemur það lítt að sök vegna þess hve kælingin er góð.