Kolmunninn sem berst að landi um þessar mundir er eintaklega vel haldinn og gott hráefni til vinnslu. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að hann muni ekki eftir jafn fallegum og góðum kolmunna á þessum árstíma. „Ég hef ekki séð svona fallegan og feitan fisk á þessum árstíma áður. Hann er í stærri kantinum og lýsisnýtingin er á bilinu 7-8% sem er afar óvenjulegt. Í janúar í fyrra var til dæmis lýsisnýting 4,3% í verksmiðjunni á Seyðisfirði. Sannleikurinn er sá að elstu menn muna ekki eftir kolmunna sem er jafn gott hráefni og sá kolmunni sem nú berst til vinnslu,“ sagði Gunnar.