Börkur NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir komu á kolmunnamiðin um 300 mílur vestur af Norður-Írlandi í fyrradag. Á miðunum var þá vitlaust veður og ekki unnt að stunda veiðar en í gær tók veðrið heldur að skána og hófust veiðar þá. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að þeir hafi fengið 300 tonna hol í gærkvöldi og voru að hífa þokkalegt hol þegar heimasíðan hafði tal af honum. Segir Tómas að þeir á Beiti hafi lent í dálitlu brasi við upphaf veiðanna en nú sé hins vegar ágætis veiðiútlit. Um 20 skip eru á blettinum sem veitt er á og eru þau af ýmsu þjóðerni; þarna eru Rússar, Færeyingar og Norðmenn auk íslenskra skipa. 

Börkur er á sömu slóðum og Beitir og að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru þeir komnir með um 580 tonn í þremur holum. „Það er loksins komið skaplegt veður og þá fer þetta allt að ganga vel“, sagði Hjörvar.