Barði NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með tæp 1.700 tonn af kolmunna. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við vorum að veiðum í vesturbrún Þórsbankans. Aflinn fékkst í fimm holum en venjulega er tekið eitt hol á dag. Ekki er veitt yfir nóttina því þá dreifir fiskurinn sér. Segja má að þetta sé fínasta kropp en holin voru frá 180 tonnum og upp í 390 tonn. Einn daginn fengum við 440 tonn en þá tókum við tvö stutt hol. Það er fisk að sjá þarna á allstóru svæði, fínasta ryklóð. Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að kolmunninn veiðist í íslenskri lögsögu og ég reikna með að haldið verði áfram þessum veiðum þarna eins og mögulegt er. Menn þurfa að halda vel á spöðunum í kolmunnanum miðað við þann kvóta sem lagður er til á næsta ári og því meira sem veiðist innan lögsögunnar því betra. Við höfum verið einir að þessum veiðum en nú fer skipum að fjölga,“ segir Þorkell.