Bergur VE kemur til löndunar í Eyjum í gær. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE munu bæði landa í heimahöfn í dag. Bergur kom til hafnar í gærkvöldi með fullfermi og Vestmannaey mun koma í kjölfarið og landar sídegis. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að veiðiferðin hafi gengið vel. „Það gekk ágætlega að fiska og það var blíða allan tímann sem við vorum að veiðum. Það var síðan siglt til Eyja í gær í norðaustanfræsingi. Við veiddum mest á Lónsbugtinni og var aflinn blandaður, mest ufsi, þorskur, ýsa og koli. Það var lítið um karfa í þessum túr. Við höfum nægum verkefnum að sinna til loka kvótaársins og síðan hefst nýtt um mánaðamótin. Það verður haldið til veiða á ný síðar í dag,“ segir Jón.

Haft var samband við Egil Guðna Guðnason, skipstjóra á Vestmannaey, í morgun en þá var skipið að veiðum á Víkinni. „Við erum að ljúka örstuttum túr en við lönduðum í Eyjum sl. sunnudag. Í túrnum höfum við veitt á Mýragrunni, á Ingólfshöfðanum og nú erum við á Víkinni. Það er kominn dálítill haustbragur á veiðarnar á þessum slóðum og menn þurfa að hafa heldur meira fyrir því að ná afla en verið hefur. Það er í reyndinni búin að vera samfelld veisla frá því í mars en henni hlaut að ljúka einhvern tímann. Annars er engin ástæða til að kvarta og hér um borð eru menn afar brattir,“ segir Egill Guðni.