Konur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonKonur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonFélagið Konur í sjávarútvegi efndi til ferðar um Austfirði fyrir félagskonur fyrr í þessum mánuði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu tóku þátt í ferðinni og fræddust um austfirskan sjávarútveg. Þá efndi félagið til funda um starfsemi sína á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og þóttu þeir vel heppnaðir. Í tilefni af heimsókninni austur hafði heimasíðan samband við formann félagsins, Freyju Önundardóttur útgerðarstjóra, og spurði hana um starfsemi félagsins og árangur umræddrar kynnisferðar. „Heimsóknin austur var sérlega vel heppnuð. Móttökurnar voru frábærar og það var einstaklega fræðandi að fá að skoða fyrirtækin og heyra um sögu þeirra og hlutverk. Fyrir okkur sem þátt tóku í ferðinni var þetta frábær upplifun í alla staði. Þá var einnig mikilvægt fyrir félagið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína og tilgang í ferðinni,“ sagði Freyja. „Félagið Konur í sjávarútvegi var formlega stofnað árið 2014 en unnið hafði verið að undirbúningi stofnunar þess um tíma. Á stofnfundinn í Reykjavík mættu um 100 konur þannig að þörf fyrir félag af þessu tagi var til staðar. Þegar við héldum í ferðina austur voru félagskonur 210 talsins en þeim hefur fjölgað síðan og það er gaman að segja frá því að nú hafa austfirskar konur gengið til liðs við okkur. Það er draumur okkar að félagið starfi um allt land. Rætt hefur verið um að stofna sérstaka félagsdeild fyrir norðan og það væri virkilega gaman að geta einnig stofnað Austurlandsdeild. Við erum að vinna í því að færa okkur út um allt land og verða sýnilegar sem víðast. Ég vil bara hvetja allar konur sem starfa í sjávarútvegi og haftengdum fyrirtækjum að ganga til liðs við okkur. Staðreyndin er sú að félagskonur koma víða að, meðal annars frá sjávarútvegsfyrirtækjum, markaðs- og sölufyrirtækjum, fiskeldisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, tæknifyrirtækjum, flutningafyrirtækjum og rannsóknastofum. Það er staðreynd að sjávarútvegurinn teygir anga sína svo ótrúlega víða. Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum, búa til sterkt tengslanet félagskvenna og kynna sjávarútvegsstarfsemi á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þetta er göfugur og góður tilgangur,“ sagði Freyja að lokum.

Að undanförnu hefur félagið staðið að viðamikilli rannsókn á stöðu kvenna í sjávarútvegi í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og Gallup. Rannsóknin er í reynd frumkvöðlaverkefni sem snýst um að afla upplýsinga um þátttöku kvenna í sjávarútvegi og leita svara við hvers vegna konur eru ekki fjölmennari í jafn fjölbreyttri og áhugaverðri atvinnugrein. Tilgangurinn er að kortleggja tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveg með aukinni þátttöku kvenna innan greinarinnar. Niðurstöður úr fyrsta áfanga rannsóknarinnar liggja fyrir og verða þær væntanlega kynntar á næstu vikum.

 Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári Geirsson Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári GeirssonÞess skal getið að félagið Konur í sjávarútvegi hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins tveimur dögum eftir að kynningarferðinni um Austfirði lauk. Verðlaunin voru afhent á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en þau eru veitt einstaklingi eða félagasamtökum sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla íslenskan sjávarútveg.

Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um félagið Konur í sjávarútvegi er bent á heimasíðuna http://kis.is og fésbókarsíðuna Konur í sjávarútvegi.