Konur í sjávarútvegiKonur í sjávarútvegiDagana 15.-17. maí nk. mun félagið Konur í sjávarútvegi efna til kynnisferðar um Austfirði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu munu taka þátt í ferðinni. Meðal annars er ráðgert að heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Félagið Konur í sjávarútvegi var stofnað árið 2013 og er félaginu ætlað að vera vettvangur fyrir konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum. Markmið félagsins er að búa til tengslanet fyrir konur sem starfa á þessu sviði, koma á samvinnu á milli þeirra og sinna kynningu á greininni. Tilgangurinn með starfinu er að efla konur sem starfa í sjávarútvegi og gera þær sýnilegar jafnt innan greinarinnar sem utan.

Mun félagið standa fyrir kynningu á starfsemi sinni í Norðurljósasetrinu á Fáskrúðsfirði mánudaginn 15. maí kl. 17.30 og í Safnahúsinu í Neskaupstað þriðjudaginn 16. maí kl. 17.30 og eru allir velkomnir á kynningarfundina, jafnt karlar sem konur.