Kusa. Ljósm. Hákon ErnusonKusa. Ljósm. Hákon ErnusonKusa heitir fullu nafni Takaho Kusayanagi og kemur frá Tokyo í Japan. Hann starfar hjá fyrirtækinu K & T í Tokyo sem keypt hefur sjávarafurðir frá Íslandi í ríkum mæli allt frá því að það var stofnað fyrir 25 árum. Fyrirtækið hefur helst keypt afurðirnar af Icefresh sem selur framleiðslu Samherja og Síldarvinnslunnar. Loðnan skiptir miklu máli í þessum viðskiptum og vega fryst kvenloðna og loðnuhrogn býsna þungt í þeim. Heildarneysla Japana á kvenloðnu er um 20 þúsund tonn og flytur K & T inn stóran hluta þess magns.
 
Kusa hefur komið til Íslands í yfir 20 ár og dvalið þar á meðan loðnuvertíð stendur yfir. Hlutverk hans er að fylgjast með framleiðslunni og semja um verð á afurðunum. Mikið er lagt upp úr gæðum framleiðslunnar og þess vegna er fylgst með henni frá degi til dags. Fyrst þegar Kusa kom til Íslands fylgdist hann með framleiðslu á ýmsum stöðum. Til dæmis var hann í Grindavík, Þorlákshöfn, Þórshöfn, Akranesi, Vopnafirði, Eskifirði og Reyðarfirði auk þess að vera um borð í vinnsluskipunum Vilhelm Þorsteinssyni og Baldvin Þorsteinssyni. Síðustu árin hefur hann hins vegar að mestu verið í Neskaupstað enda loðnufrysting hætt eða mikill samdráttur í henni á mörgum fyrrnefndu staðanna.
 
Kusa dvelur alla loðnuvertíðina á Íslandi og segist hlakka til hverrar vertíðar. „Ég lít á sérhverja loðnuvertíð sem hátíð. Það er svo gott að koma til Íslands og hitta alla þá góðu vini sem ég hef eignast hér,“ segir Kusa. „Einkum er hrognatökutíminn spennandi. Hann er stuttur og það má ekkert bregða út af svo ekki fari illa. Það skiptir til dæmis miklu máli að það sé veiðiveður á hrognatökutímanum og það er ávallt spenna í lofti á meðan hann stendur yfir. Þá er það alltaf ögrandi verkefni að fylgjast með gæðum framleiðslunnar og semja um kaup á henni. Í því sambandi er það magnið og verðið sem þarf að semja um“.
 
Mikið af kvenloðnunni sem K & T kaupir fer til vinnslu í Kína en síðan er hún að mestu seld neytendum í Japan. Þar er loðnan þýdd upp og ýmist þurrkuð eða djúpsteikt eftir að hafa verið þakin deigi og raspi. Hrognin fara einnig í töluverðum mæli til vinnslu í Kína en þau eru mest notuð í sushi-rétti. K & T er farið að selja unna loðnu á kínverskan markað og fer sá markaður sífellt stækkandi. Kusa segir að það sé einungis tímaspursmál hvenær kínverski markaðurinn verði stærri en sá japanski.  
 
Kusa hlær að þeirri íslensku þjóðsögu að Japanir kaupi loðnuhrogn fyrst og fremst til að bæta kynlífið. Hann segist ekki skilja hvers vegna Íslendingar trúi þessu en staðreyndin sé sú að loðnuhrognin séu notuð eins og hver annar kavíar. Þau hafi ákveðið bragð og síðan séu þau notuð til að skreyta mat og gera hann girnilegri. Flestum ætti að vera ljóst að útlit matar skipti miklu máli, að minnsta kosti finnist Japönum það.