Óskar Sverrisson vélstjóri um borð í togaranum Birtingi NK um 1980

Óskar Sverrisson, vélstjóri á Beiti NK, lét af störfum hjá Síldarvinnslunni 1. apríl sl. Hann hafði þá starfað í um 40 ár hjá fyrirtækinu með nokkrum hléum. Heimasíðan tók Óskar tali og ræddi við hann um þessi tímamót í lífinu.

Var það ekki erfið ákvörðun að hætta að vinna?

Jú, að ýmsu leyti. Ég kem til með að sakna þess að fara ekki á sjó og auðvitað saknar maður félaganna um borð en það þýðir ekkert að tala um það. Ákvörðun hefur verið tekin og maður verður að standa og falla með henni. Ég hætti mjög sáttur.

Hvenær hófst þú störf hjá Síldarvinnslunni og hvernig hefur starfsferillinn hjá fyrirtækinu verið?

Ég byrjaði að vinna hjá Síldarvinnslunni sumarið 1968 en þá var ég 14 ára gamall. Þá var ég í löndunargengi sem Hreinn Stefánsson stjórnaði. Ég var í genginu í tvö sumur. Sumarið 1971 byrjaði ég síðan á sjó, 16 ára gamall. Þá fór ég í Norðursjóinn á Birtingi. Um haustið fór ég í Gagnfræðaskólann og lauk honum en síðan lá leiðin beint um borð í Birting á ný og þar var ég fram að áramótum. Birtingur var seldur í árslok 1972 og á árinu 1973 er ég á Berki sem venjulega var kallaður Stóri-Börkur. Haustið 1974 hóf ég nám í Vélskólanum. Sumarið eftir fyrsta veturinn í skólanum starfaði ég á vélaverkstæði Dráttarbrautarinnar í Neskaupstað en næstu tvö sumur var ég hins vegar á Hval 9 sem Norðfirðingurinn Ingólfur Þórðarson stýrði. Það var merkileg reynsla að fá að kynnast hvalveiðunum.

Að Vélskólanum loknum starfaði ég einn vetur í fiskmjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar en vorið 1979 fer ég sem vélstjóri á skuttogarann Birting. Á Birtingi er ég samfellt til ársins 1988 en þá færði ég mig aftur yfir á Stóra-Börk. Á Stóra-Berki er ég síðan samfellt til ársins 2006 en ákvað þá að fara í land. Ég starfaði hjá ALCOA – Fjarðaáli um nokkurra mánaða skeið en gerðist síðan starfsmaður Fjarðabyggðarhafna. Ég starfaði í landi til ársins 2010 en fór þá aftur á Börk.

Óskar nýbúinn að fara holu í höggi á golfvellinum á Seyðisfirði í fyrra

Þegar ég fór aftur á sjóinn árið 2010 var verið að taka upp tvöfalt áhafnarkerfi á uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar og það breytti miklu. Fljótlega fór ég af Berki yfir á Beiti og var síðan vélstjóri á þremur skipum sem báru Beitisnafnið. Fyrirtækið hefur verið duglegt að endurnýja skipin að undanförnu.

Hefur ekki mikið breyst á þínum sjómannsferli?

Jú, blessaður vertu. Skipin hafa breyst mikið og öll aðstaða um borð. Það er himinn og haf á milli nýju skipanna og þeirra elstu sem maður var á. Þá var tilkoma skiptiáhafnakerfisins á uppsjávarskipunum grundvallarbreyting. Það voru ekki allir ánægðir með það í upphafi en launin á þessum skipum eru þannig að það var sjálfsagt að koma þessu kerfi á. Uppsjávarskipin eru gerð út í um það bil 250 daga á ári og vegna skiptikerfisins eru menn um borð helming þess tíma. Það sjá allir hve miklu þetta kerfi breytti fyrir fjölskyldumenn. Við vélstjórarnir erum þó undantekning því við erum gjarnan í vinnu þegar skipin eru í landi eða í slipp.

Hvað ætlar þú að taka þér fyrir hendur núna?

Það verður nóg að gera. Konan mín, Katrín Ingvadóttir, hætti að vinna fyrir tveimur árum og verkefnin hjá okkur eru næg. Síðan ætlum við bara að njóta lífsins. Það er búið að panta golfferð í haust og ég ætla að vera duglegur á golfvöllunum hér eystra í sumar. Ég er stoltur af því að vera búinn að fara holu í höggi bæði á vellinum hér á Norðfirði og á Seyðisfirði og svo stefnir maður almennt að því að taka framförum í íþróttinni hvernig sem það gengur nú.