Nemendur að störfum í málmdeild VA. Ljósm. Viðar GuðmundssonÍ þessari viku, eða dagana 3.-7. júní, stendur yfir kynning á iðnnámi í Verkmenntaskóla Austurlands. Allir sem luku námi í 9. bekk í vor og eru skráðir í Vinnuskóla Fjarðabyggðar hefja sumarstarfið með því að sækja umrædda kynningu. Nemendurnir starfa í hópum í skólanum undir traustri leiðsögn kennara og kynnast námi og námsaðstöðu í fjórum deildum; málmdeild, trédeild, rafdeild og hárdeild. Ýmsum verkefnum verður sinnt fyrstu fjóra daga vikunnar en lokadagurinn verður eins konar uppskerudagur þar sem foreldrum og velunnurum verður boðið að koma og sjá afrakstur nemendanna.

Þetta kynningarstarf er samvinnuverkefni Verkmenntaskóla Austurlands, sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og sjö fyrirtækja sem starfa í Fjarðabyggð, þar á meðal Síldarvinnslunnar.

Að undanförnu hefur töluvert verið rætt um nauðsyn þess að auka kynningu á iðn- og tækninámi og upplýsa börn og ungmenni um þá möguleika sem slíkt nám getur gefið. Á iðn- og tæknisviðinu liggja margvísleg tækifæri fyrir ungt fólk, ekki síst í Fjarðabyggð þar sem starfa öflug iðnfyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki. Það er von allra þeirra sem standa að kynningarverkefninu að það efli áhuga nemenda á iðn- og tæknimenntun og fleiri muni íhuga að afla sér menntunar á því sviði í framtíðinni.