Kynning á nýrri starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar er hafin fyrir nokkru en hún verður kynnt á fundum í hverri deild fyrirtækisins. Þegar hafa fundir verið haldnir í fiskiðjuverinu og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað, fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði og með áhöfn Barða NK. Í kjölfar hvers fundar eru hengd upp plaköt á hverjum vinnustað þar sem gerð er grein fyrir lykilþáttum stefnunnar. Plakötin eru á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Hákon Ernuson starfsmannastjóri segir að kynningarferlið gangi vel en það taki nokkurn tíma. „Það er mjög mikilvægt að fara yfir stefnuna með starfsfólki á hverjum vinnustað. Fólkið er mjög meðvitað um þá vinnu sem farið hefur fram við mótun stefnunnar enda er hún að hluta til byggð á starfsánægjukönnun og viðtölum sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Við innleiðingu nýju stefnunnar verður mikil áhersla lögð á öryggismál og heilsufar, enda eru þau málefni í forgangi. Þá er hafin vinna við gerð nýrrar fræðsluáætlunar, en í tengslum við mótun hennar hefur starfsmönnum verið send könnun sem þeir eru hvattir til að svara. Það er ærið verkefni að kynna þessa nýju stefnu og hrinda henni í framkvæmd, en allt snýst þetta um að gera Síldarvinnsluna að eftirsóknarverðu fyrirtæki að starfa hjá,“sagði Hákon.
Nýju starfsmannastefnuna má finna á heimasíðu Síldarvinnslunnar.