Gunnþór B. Ingvason forstjóri kynnti Síldarvinnsluna á kynningarfundinum í Hörpu í gær. Ljósm. Birgir Ísleifur Gunnarsson

Í gærmorgun var haldinn kynningarfundur vegna hlutafjárútboðs og skráningar Síldarvinnslunnar á markað. Fundurinn fór fram í Hörpu í Reykjavík.

Á fundinum var fyrirtækið kynnt ítarlega. Meðal annars var fjallað um rekstur þess og efnahagslega stöðu ásamt framtíðarhorfum. Það var Gunnþór B. Ingvason forstjóri sem annaðist kynninguna en eins fjallaði Svana Huld Linnet forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbanka Íslands um fyrirkomulag útboðsins.

Útboðið hefst kl. 10 á mánudagsmorgun og lýkur kl. 16 á miðvikudag. Fyrirhugað er að bjóða a.m.k. 26,3% hlut í fyrirtækinu til sölu sem mun vera tæplega 25 milljarða króna virði samkvæmt fyrirliggjandi mati. Lægsta tilboð er 100 þúsund krónur í tilboðsbók A en 20 milljónir króna í tilboðsbók B. Viðskipti með Síldarvinnsluna í Kauphöllinni eiga síðan að hefjast 27. maí nk.

Svana Huld Linnet forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans kynnti fyrirkomulag útboðsins á kynningarfundinum í Hörpu í gær. Ljósmynd. Birgir Ísleifur Gunnarsson

Kynningarfundurinn í Hörpu tókst vel í alla staði og var mjög upplýsandi fyrir fundargesti og alla þá sem fylgdust með honum á netinu.