Heimasíðan hafði samband við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey VE og spurði hvort vertíð væri hafin af krafti. „Nei, það er varla hægt að segja það. Hér hefur fengist þokkalegur afli en það er miklu minna af fiski en hefur verið um þetta leyti árs síðustu þrjú árin. Þá er fiskurinn dreifður og styggur. Það er ætisleysi á slóðinni og til dæmis lítið um spærling. Ætisleysið gerir það að verkum að það fiskast vel á línuna. Fiskurinn ræðst á línukrókana. Togveiðiskipin gera það hins vegar ekki eins gott og síðustu ár en segja má að við séum kröfuharðir því við erum orðnir svo góðu vanir. Ég hef trú á því að mikið af vertíðarfiskinum eigi eftir að ganga hér á miðin og aflinn á eftir að aukast. Hafa verður í huga að vetrarvertíð hefur oft ekki hafist fyrr en í byrjun mars. Við höfum að undanförnu mest verið að fiska í Háfadýpinu, á Pétursey og erum nú út af Vík í Mýrdal. Veður hefur verið að stríða okkur töluvert og staðreyndin er sú að við höfum mest verið að skjótast út á milli lægða. Það ríkir bölvuð vetrartíð um þessar mundir,“ segir Birgir á Vestmannaey.