DSC04154

Unnið að gerð uppfyllingar fyrir netagerð Fjarðanets. Ljósm: Smári Geirsson

Um þessar mundir er unnið að því að gera land þar sem ný netagerð Fjarðanets hf. í Neskaupstað mun rísa. Landfyllingin er austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar og þessa dagana er sanddæluskipið Dísa að flytja efni á svæðið. Hið nýja hús netagerðarinnar verður 85 metra langt og 26 metra breitt eða 2200 fermetrar. Framan við húsið verður stálþil þannig að skip sem þurfa þjónustu netagerðarinnar munu leggjast þar að. Öll starfsemi Fjarðanets mun fá inni í nýbyggingunni; netaverkstæðið, gúmmíbátaþjónustan og að auki verður þar aðstaða til að geyma veiðarfæri innan dyra. Ekkert fer á milli mála að mikil þörf er fyrir nýja netagerð ekki síst vegna þess að bæði skip og veiðarfæri fara sífellt stækkandi og það útheimtir stærri og betri aðstöðu.

Að sögn Jóns Einars Marteinssonar framkvæmdastjóra er ætlunin að bjóða upp á toppaðstöðu í framtíðinni og hin nýja bygging er lykilþáttur í því sambandi. Jón Einar sagði að upphaflega hefði verið gert ráð fyrir að byggingaframkvæmdir hæfust í haust en framkvæmdir við uppfyllingu hefðu tafist og því væri nú gert ráð fyrir að þær hæfust ekki fyrr en næsta vor. „Framkvæmdir við uppfyllinguna hafa tafist um 5-6 mánuði í fyrsta lagi vegna þess að dýpkunarskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn, en það átti að sinna dælingu á efni og í öðru lagi vegna þess að heldur meira efni þurfti í uppfyllinguna en gert hafði verið ráð fyrir. Nú er áætlað að stálþilið verði rekið niður síðar á þessu ári og síðan þarf landið að síga áður en byggingaframkvæmdir hefjast,“ sagði Jón Einar. „Þetta er allt komið á beinu brautina núna eftir óvæntar tafir og vonandi eiga allar framkvæmdir eftir að ganga vel,“ sagði Jón Einar að lokum.