Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE munu báðir landa fullfermi í Vestmannaeyjum í dag. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey í morgun en þá var skipið á landleið. „Við erum að koma inn með fullt skip. Það er búin að vera fínasta veiði. Það er auðvelt að ná í þorsk og ýsu og svo er einnig reynt að ná í ufsa. Við vorum á Selvogsbankanum allan túrinn og menn eru bara kátir. Veiðiferðin hjá okkur tekur yfirleitt um eða tæpa tvo daga um þessar mundir þannig að það gengur talsvert á. Við reiknum með að fara strax út að löndun lokinni í dag þó spáin sé ekkert sérstök,“ segir Birgir.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tók undir með Birgi og segir aflast vel um þessar mundir. „Við erum á síðasta holinu hér á Selvogsbankanum og þetta er búið að ganga vel. Mér líst býsna vel á framhaldið nema að nú spáir hann austan stormi og bölvaðri brælu,“ segir Jón.