Vestmannaey VE í morgunsólinni á Mýragrunni. Ljósm. Björn Steinbekk

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi á Seyðisfirði sl. sunnudag. Á sama tíma landaði Bergur VE fullfermi í Vestmannaeyjum. Heimasíðan sló á þráðinn til Egils Guðna Guðnasonar, skipstjóra á Vestmannaey, og innti hann fyrst eftir því hvar aflinn hefði fengist. „Þetta var fullfermi af þorski og ýsu sem fékkst víða. Við byrjuðum á Víkinni en síðan var haldið austur á bóginn og veitt á Síðugrunni, Öræfagrunni, Ingólfshöfða, Mýragrunni, í Berufjarðarálnum og á Breiðdalsgrunni. Frystihúsið á Seyðisfirði þurfti hráefni og þar lönduðum við á sunnudag. Haldið var til veiða strax að löndun lokinni og nú erum við í fínasta kroppi á Mýragrunni. Það er ráðgert að við löndum í Eyjum á morgun,“ segir Egill Guðni.

Bergur hélt til karfaveiða í Skerjadýpinu að lokinni löndun á sunnudaginn.