Bergur VE landaði á þriðjudag. Ljósm. Arnar Richardsson

Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á þriðjudag og Vestmannaey VE landað einnig fullfermi í Hafnarfirði í gær. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra á Bergi, og Egil Guðna Guðnason, skipstjóra á Vestmannaey, og spurði frétta af veiðunum. Ragnar sagði að veiðiferðin hjá Bergi hefði gengið vel. „Við vorum tvo og hálfan sólarhring höfn í höfn. Veitt var á Víkinni og í Reynisdýpinu. Meirihluti aflans var ufsi en síðan var hann blandaður. Við þurftum að fara til hafnar sl. laugardag og þá var landað 35 tonnum. Við munum halda á ný til veiða í dag enda hefur veðrið heldur skánað frá því sem verið hefur,“ segir Ragnar.

Egill Guðni Guðnason segir að afli Vestmannaeyjar hafi verið afar blandaður en mest af þorski og karfa. „Við fórum á Vestfjarðamið að þessu sinni. Hófum veiðar á Kópanesgrunni og Nesdýpi en síðan var haldið á Halann og í Djúpálinn. Veðrið slapp til. Við gátum verið að veiðum allan tímann. Það kom síðan skítaveður á þessum slóðum akkúrat þegar við vorum komnir í land,“ segir Egill Guðni.

Vestmannaey hélt til veiða á ný síðdegis í gær.