Pokinn losaður á Vestmannaey VE. Ljósm. Björn Steinbekk

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði í Vestmannaeyjum á þriðjudag og Vestmannaey VE í gær. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði að veitt hefði verið út af Suðurlandinu enda hefði verið bræla þegar komið var austar. “Við vorum á Reynisdýpinu þar sem fékkst karfi og dálítill ufsi og síðan vorum við á Pétursey þar sem fékkst þorskur og þar fylltum við skipið. Það er lítið um ýsu á þessum slóðum. Hún heldur sig austar. Við gerum ráð fyrir að halda til veiða á ný í dag , segir Jón.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi farið heldur austar en Bergur og aflasamsetningin sé þess vegna önnur. “Við vorum með um 60 tonn og veiddum á Meðallandsbugt, Ingólfshöfða, Breiðamerkurdýpi, Vík og enduðum á Pétursey. Það fékkst flottur fiskur í túrnum og góð blanda. Mest var af þorski og ýsu en síðan var þetta karfi, langa, ufsi, skötuselur, steinbítur, rauðspretta og þykkvalúra. Ég geri ráð fyrir að stoppað verði í einn sólarhring í landi,” segir Egill Guðni.