Landað úr Bergi VE í Grindavík. Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE hafa fiskað vel að undanförnu og landað oft. Bergur VE landaði á miðvikudag í síðustu viku í Grindavík, á laugardaginn í Þorlákshöfn og á mánudaginn landaði hann fullfermi í Vestmannaeyjum. Aflinn hefur mest verið þorskur og ýsa. Vegna kvótastöðu fer Bergur nú í mánaðarstopp þannig að áhöfnin er komin í ágætt sumarfrí.

Vestmannaey VE landaði í Eyjum á miðvikudaginn í síðustu viku og aftur á mánudag. Gert er ráð fyrir að Vestmannaey fari í mánaðarstopp um 15. júlí eða um líkt leyti og Bergur hefur veiðar á ný.

Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra verður engu meiriháttar viðhaldi sinnt í skipunum á meðan þau gera hlé á veiðum en hinsvegar verður dyttað að ýmsu smávægilegu.