Landað var úr Vestmannaey VE og Bergi VE í Neskaupstað í dag.
Ljósm. Smári Geirsson

Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE komu til löndunar í Neskaupstað í gær vegna brælu. Landað var úr þeim í dag. Heimasíðan heyrði hljóðið í báðum skipstjórunum. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, sagði að þeir hefðu verið um þrjá sólarhringa að veiðum. „Við byrjuðum á Tangaflakinu og síðan var haldið á Gletting. Það var góð þorskveiði á Glettingi og því flúðum við þaðan vegna þess að við vildum leggja áherslu á ýsuveiði. Þá lá leiðin á Gula teppið og síðan á Tólf tonna pyttinn eða Bæli karlsins. Þar var þokkalegasta ýsuveiði. Við vorum komnir með rúm 60 tonn þegar hrakist var í land vegna brælu. Í sannleika sagt var komið vitlaust veður og hann sló upp í 39 metra þarna úti,“ sagði Ragnar Waage.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að afli þeirra hefði verið um 65 tonn. „Aflinn var ýsa og þorskur til helminga. Við byrjuðum á Glettingi en fórum síðan á Gerpisflak, á Breiðdalsgrunn og aftur á Gerpisflak. Aflinn var þokkalegur allan tímann, ágætasta nudd. Það var fínasta veður þar til þetta vitlausa veður skall á. Við verðum áfram hérna fyrir austan og munum áfram eltast við ýsuna,“ sagði Birgir Þór.

Gert er ráð fyrir að Bergur haldi til veiða um miðnætti en Vestmannaey ekki fyrr en aðra nótt.