Norska uppsjávarskipið Åkerøy kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.600 tonn af kolmunna. Um er að ræða fyrsta norska skipið sem kemur með kolmunnafarm til Íslands á nýbyrjuðu ári. Þegar skipið nálgaðist landið keyrði það yfir allmargar loðnutorfur, bæði smáar og stórar. Heimasíðan ræddi við Geir Ove Åker skipstjóra á Åkerøy og spurði fyrst hvar kolmunnaaflinn hefði fengist. „Við fengum kolmunnann vestur af Írlandi. Það voru um 730 mílur frá miðunum hingað til Neskaupstaðar og það tók okkur fjóra sólarhringa að sigla hingað, en við vorum með storm á móti okkur í tvo sólarhringa á leiðinni. Þegar við nálguðumst Ísland keyrðum við yfir loðnutorfur, margar smáar og nokkrar stórar. Þetta var á 64 gráður 07.9 N og 11 gráður 58.9 vestur. Við vorum alls ekki að leita að loðnu og höfðum ekki kveikt á asdikkinu. Þetta var bara það sem við keyrðum yfir. Við gerum ráð fyrir að liggja í höfn í Neskaupstað eftir löndun og bíða í þeirri von að gefinn verði út loðnukvóti. Það er kominn annar norskur bátur til landsins og bíður. Það er Roaldsen sem liggur nú á Seyðisfirði. Síðan eru auðvitað margir bátar sem bíða í startholunum í Noregi og gera ráð fyrir að veiða loðnu við Ísland. Ef ekkert gerist varðandi loðnuna munum við halda til kolmunnaveiða á ný en við eigum eftir fimm túra í kolmunnanum,“ segir Geir Ove Åker.