Sídegis í gær kom grænlenska loðnuskipið Polar Ammassak til Neskaupstaðar með 1.650 tonn af loðnu. Tækifærið var nýtt og nýr hrognabúnaður Síldarvinnslunnar prófaður með loðnu úr skipinu án þess að hrogn væru unnin. Heimasíðan sló á þráðinn til Geirs Zoëga skipstjóra í morgun en þá var skipið statt út af Stokksnesi. Geir var fyrst spurður um hvar aflinn hefði fengist. „Við fengum tæp 1.000 tonn í Meðallandsbugt og restina í Faxaflóa. Síðan var siglt norður fyrir land með aflann til Neskaupstaðar þannig að við fórum hringinn í kringum landið í túrnum. Það var algerlega ófært suður fyrir landið og skárra að fara norður fyrir. Vissulega var veðrið ekki gott á leiðinni og þegar við fórum fyrir Hornbjarg þurfti að sýna gát. Það var ljóti bölvaði skaksturinn þar. Nú erum við út af Stokksnesi og vonumst til að finna eitthvað suður af landinu. Ég finn dálitla loðnulykt núna og við erum í loðnuhrafli þó það sé ekkert til að vinna í. Það er veðurgluggi í dag og vonandi finnum við eitthvað hér suður af landinu en sannast sagna er veðurútlitið hræðilegt. Það er búið að vera afar óhagstætt veður á vertíðinni hingað til en þetta er örugglega að fara að lagast. Það hefur aldrei komið svo vont veður að það lægi ekki á endanum. Ég er bara bjartsýnn varðandi áframhald vertíðarinnar svo fremi að veðrið verði þolanlegt. Það hlýtur að vera að ganga meiri loðna hér með suðurströndinni og við munum þræða fjörurnar vestur eftir. Svo mun koma vestanganga í lok vertíðar og það er bara spurning hve kröftug hún verður. Þetta lítur bara vel út og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn,“ segir Geir.