Landkrabbar í brúnni á Berki NK. Guðmundur Bjarnason til vinstri og Smári Geirsson til hægri. Ljósm: Hjörvar Hjálmarsson     Ég var staddur í Reykjavík þriðjudaginn 12. ágúst þegar Guðmundur Bjarnason hringdi. „Nú er komið að því,“ sagði hann, „við förum saman í makríltúr á Berki á fimmtudagskvöld. Ég er búinn að tala við Hjörvar skipstjóra og hann gerir ráð fyrir okkur.“ Ég varð strax spenntur, enda höfðum við félagarnir árum saman talað um að fara saman til sjós á einhverju Síldarvinnsluskipanna og upplifa nútímaveiðar. Gummi hefur miklu meiri reynslu af sjómennsku en ég; hann hafði farið í allmarga róðra á trillu, á barnsaldri fylgt föður sínum á síldveiðar úti fyrir Norður- og Norðausturlandi á Gullfaxa, farið í handfæratúr við Langanes á Dröfninni, verið gestur og reyndar háseti á Bjarti hluta úr sumri í kringum 1975 og farið í loðnutúr á gamla Berki fyrir óralöngu. Þessi afrekaskrá Gumma var tilkomumikil miðað við mína; ég hafði aldrei farið í fiskiróður og aldrei upplifað alvöru veiðiskap af nokkru tagi. Makríltúr yrði því einstök upplifun fyrir mig. Auðvitað teljumst við báðir vera landkrabbar en Gummi hafði þó áður migið í saltan sjó sem ég hafði ekki gert.

                Þegar ég kom austur á miðvikudagskvöldi hafði ég samband við Gumma og við vorum báðir fullir tilhlökkunar. Hann sagðist ekki ætla að fá sér sjóveikistöflur hvað þá sjóveikisplástur en ég velti því fyrir mér hvort ekki væri öruggara að verða sér úti um slíkt. Það yrði skelfilegt ef túrinn færi allur í vanlíðan og ælustand. Ég hringdi í Hjörvar skipstjóra og hann sagði mér að töflur og plástur væru óþarfi. „Þið eruð að fara út á almennilegu skipi og þurfið ekki á slíku að halda,“ sagði Hjörvar og bætti við að spáin væri afar góð fram á laugardag en þá ætti hins vegar að ganga í brælu. „Við verðum á landleið eða komnir í land þegar brælir,“ fullyrti skipstjórinn. Ég tók fullkomið mark á skipstjóranum og apótekið missti því af öllum sjóveikistöfluviðskiptum þetta sinnið.

                Klukkan fimm á fimmtudag skyldi látið úr höfn. Við Gummi vorum mættir um borð klukkan hálf fimm. Gummi deildi skipstjóraklefanum með frænda sínum Hjörvari en mér var vísað á sjúkraklefann. Þetta var eins og að koma inn í hótelherbergi; uppbúin rúm og allt til alls. Ég hafði spurt skipstjórann daginn áður hvað ég þyrfti að taka með mér á sjóinn og svar hans var stutt og laggott: „Taktu með þér tannburstann, það er nóg.“ Spurningin var sú hvort það hefði einhverja merkingu að úthluta mér sjúkraklefanum. Gerðu menn ráð fyrir að heilsufarið yrði dapurt í túrnum ? Óneitanlega velti ég þessu fyrir mér. 

                Þegar við komum um borð var okkur tjáð að tveir myndatökumenn frá Hampiðjunni myndu einnig koma með í túrinn. Þeim var ætlað að mynda veiðarnar og efnið sem þeir öfluðu yrði síðan notað á sjávarútvegssýningunni sem haldin yrði í Reykjavík í september. Myndatökumennirnir létu bíða eftir sér og því frestaðist brottför skipsins um klukkustund.

                Klukkan sex voru landfestar leystar. Þegar siglt var út Norðfjarðarflóann hreyfðist skipið dálítið og ég velti því fyrir mér hvort það hefðu verið mistök að sleppa sjóveikistöflunum. Þegar komið var út úr flóanum og siglt suður með Síðunni varð sjórinn hins vegar rennisléttur og segja má að hann hafi verið þannig allan túrinn. Skipið hreyfðist lítt og valt ekkert fyrr en við Norðfjarðarhornið á landleið enda var þá skollin á áðurnefnd bræla.

                Börkur er eitt glæsilegasta fiskiskip íslenska flotans, 3588 tonn að stærð og lestar 2500 tonn. Um borð eru öll þægindi og fullyrtu allir kallarnir í áhöfninni að þetta væri besta skip sem þeir hefðu verið á. Þrátt fyrir stærðina þykir skipið lipurt, það er vel búið til veiða og sjóskip er það frábært. Um borð var níu manna áhöfn: Skipstjóri, tveir stýrimenn, þrír vélstjórar, kokkur og tveir hásetar. Allt voru þetta vanir menn sem gengu fumlaust að sínum störfum og verkaskiptingin virtist vera skýr. Allt sem laut að veiðunum gekk hratt og vel fyrir sig en á meðan togað var sinnti mannskapurinn ýmsum verkefnum og þar voru þrif ofarlega á baugi. Í túrnum átti Gunnar Bogason kokkur afmæli og ef til vill hefur það verið skýringin á því að veislumatur var á borðum allan túrinn. Ég trúi því vart að boðið sé upp á svona fæði í hverri veiðiferð því þá litu kallarnir um borð öðruvísi út en þeir gera.
Gunnar Bogason kokkur, afmælisbarnið í eldhúsinu. Ljósm: Smári Geirsson
                Þegar komið var út úr flóanum hafði Hjörvar skipstjóri samband við skip á miðunum til að fá fréttir. Þær fréttir bárust frá Beiti og Lundey að aflinn hjá þeim væri töluvert síldarblandaður en það er eitthvað sem menn vilja forðast á þessum árstíma. Áherslan skyldi lögð á að veiða makríl og flytja að landi gott hráefni til vinnslu. Svo hráefnið yrði sem best mátti ekki taka of mikinn afla í hverju holi og ekki toga of lengi hverju sinni.

                Hjörvar setti stefnuna á Breiðdalsgrunn þrátt fyrir að við Gummi teldum tilhlýðilegt að stefna á Rauða torgið. Á Breiðdalsgrunni hafði fiskast vel í síðasta túr og þar fengist góður afli sem hentaði vel til vinnslu. Fyrir lá að aflinn mátti helst ekki fara mikið yfir 450 tonn því verið var að landa úr Bjarna Ólafssyni og ekki yrði langt í að Beitir héldi til löndunar með góðan afla. Bátunum var skammtað veiðimagn allt í þeim tilgangi að hráefnið yrði sem best og ferskast þegar það kæmi til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

                Þegar ákveðið var hvert stefna skyldi var haldið í messann og var þar boðið upp á dýrindis svínasnitsel. Ég velti því fyrir mér hvort allar máltíðirnar í túrnum myndu renna jafn ljúflega niður og snitselið gerði. Að lokinni máltíðinni hvatti Hjörvar okkur Gumma til að fara í koju en hann skyldi ræsa okkur snemma um morgunin þegar fyrsta holið yrði tekið. Mér gekk ekkert sérstaklega vel að sofna. Malið í vél skipsins truflaði og eins var spenningurinn fyrir því að upplifa veiðarnar töluverður. Að því kom þó að svefninn sótti á.

                Á meðan við Gummi hrutum og létum okkur dreyma hófst veiðiskapurinn. Byrjað var að toga klukkan eitt eftir miðnætti og upp úr klukkan fimm um morguninn var barið fast á klefadyrnar og hrópað: „Það á að fara að taka trollið.“ Við félagarnir bröltum á fætur, drifum okkur í morgunmat hjá afmælisbarninu og síðan var haldið upp í brú þar sem við fylgdumst með öllu sem á gekk. Trollið var dregið inn eftir kúnstarinnar reglum og pokinn með aflanum hífður fram með stjórnborðssíðunni. Dælunni síðan komið fyrir og dæling á aflanum um borð hafin. Aflinn rann ljúflega sína leið og vélstjórarnir stýrðu honum í lestarnar þar sem kældur sjórinn beið hans.
Trollið tekið. Ljósm: Smári Geirsson
                Hörður vélstjóri gaf upp magnið úr fyrsta holinu þegar dælingu var lokið. Það reyndist vera 147 tonn af þokkalega góðum makríl. Sýnatökur sýndu hins vegar að átan í fiskinum væri of mikil og um það bil 10% aflans væri síld. Þetta þýddi að menn voru þokkalega ánægðir með magnið og töldu síldarhlutfallið viðsættanlegt en hins vegar voru menn ósáttir við átuna.

                Klukkan átta um morguninn var kastað á ný og byrjað að toga. Nú fylgdumst við Gummi með öllu frá upphafi og sátum hjá Hjörvari í brúnni. Við heimtuðum útskýringar á öllum hans aðgerðum og góndum á mælana. Þegar birtist stór og girnileg torfa á mælunum fylltumst við spenningi og töldum að nú fengist góður afli á örskotsstundu. Hjörvar tók hins vegar fljótt ákvörðun um að sneiða hjá torfunni: „Hún er síldarleg þessi,“ sagði hann og vildi þess vegna forðast hana eins og heitan eldinn.

                Hægt var að fylgjast með innkomunni í trollið á einum mælanna. Hjörvar sagði að hann sæktist eftir gulum lit á innkomunni því það væri makríll, síldin birtist hins vegar sem rauðir punktar. Aflanemarnir komu inn hver á fætur öðrum. Fyrst kviknaði  á „aumingjanum“ sem sýndi að um 30 tonn voru komin í pokann, næsti nemi sýndi um 60 tonn og þegar fjórði neminn var inni var ljóst að fiskurinn í pokanum myndi vega 120-130 tonn og þá var kominn tími til að hyggja að því að taka trollið.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri fylgist náið með tækjunum. Ljósm: Smári Geirsson
                Trollið var tekið eftir að togað hafði verið í fjóran og hálfan tíma og aflinn reyndist vera liðlega 150 tonn. Sýnatökur sýndu að miklu minni áta var í fiskinum en hafði verið í fyrsta holinu en hins vegar reyndist um 30% aflans vera síld og það voru menn ekki sáttir við.

                Aflanemarnir komu seint inn í þriðja holi veiðiferðarinnar enda tjáði Hjörvar okkur félögunum að oft væri lítil veiði um hábjartan daginn. Aldrei virtist ætla að kvikna á fyrsta nemanum og hálfgerð ördeyða ríkti þegar togað var yfir hin þekktu togaramið Bæli karlsins og Tólf tonna pyttinn. Við Gummi vorum orðnir hálf örvæntingarfullir en Hjörvar var rólegur. Örvæntingin hvarf hins vegar eins og dögg fyrir sólu þegar togað var yfir Örvæntingarhorn því þá lóðaði á mikinn fisk og innkoman í trollið var í góðu lagi. Trollið var síðan tekið eftir að togað hafði verið í þrjá og hálfan tíma og reyndist aflinn vera 117 tonn. Það var meiri afli en menn höfðu gert ráð fyrir um þetta leyti dags og sáust brosviprur á andlitum kallanna.

                Eins og fyrr segir skyldi aflinn ekki vera meiri en 450 tonn í túrnum og því var einungis þörf á að taka eitt stutt kvöldhol til viðbótar. Hjörvar heyrði í skipstjóranum á Lundey og upplýsti hann að þeir hefðu rekist á allstóra makríltorfu í um 6-7 mílna fjarlægð. Ákveðið var að halda í áttina að því svæði og var trollinu kastað um klukkan átta um kvöldið. Ágætis innkoma var strax í trollið og fljótlega kviknaði á  fyrstu tveimur aflanemunum. Þá var kominn tími til að hætta þó vissulega hefði verið freistandi að toga lengur enda skila kvöldholin oft mestum afla. Aflinn úr þessu síðasta holi reyndist vera 79 tonn og var fiskurinn einkar stinnur og fallegur enda hafði einungis verið togað í einn og hálfan tíma. Dælingu aflans lauk um klukkan 11 um kvöldið.
Dæling úr kvöldholinu. Ljósm: Smári Geirsson
                Þegar veiðum var lokið hóf áhöfnin að vinna við ýmsar lagfæringar á veiðarfærinu ásamt því að þrífa og  ganga frá fyrir heimsiglinguna. Þeim verkum lauk ekki fyrr en um klukkan tvö um nóttina.

                Við Gummi vorum stoltir og ánægðir þegar í land var komið. Aflinn var tæplega 490 tonn og tvennt stóð uppúr að lokinni veiðiferðinni: Við urðum ekki sjóveikir og við reyndumst engar fiskifælur. Það gat ekki verið betra. Það var í reyndinni ævintýri að fá að upplifa veiðiferð sem þessa. Þarna skynjuðum við hve tæknin spilar stórt hlutverk í veiðunum og hve skipulagið um borð er gott og áhöfnin samstillt og vinnusöm. Þá skemmdi skipið sjálft ekki fyrir en Börkur er sannkallað glæsifley sem fer vel með afla og mannskap.

Smári Geirsson