Eins og Austfirðingum öllum ætti að vera kunnugt fer Landsmót 50+ fram í Neskaupstað dagana 28.-30. júní nk. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hefur ákveðið að fella niður skráningargjöld fyrir þátttakendur af sambandssvæðinu í þeim tilgangi að hvetja sem flesta til þátttöku. Landsmót 50+ einkennist af gleði og hamingju og miklu meiri áhersla er lögð á skemmtun og góðan félagsskap en keppni. Því hafa allir sem náð hafa tilskyldum aldri tækifæri til að njóta góðra samvista í léttum leik við fólk víða að af landinu á Landsmótinu.
 
Fram hefur komið í fréttum að Austfirðingar hafi verið tregir til að skrá sig til þátttöku á landsmótinu og virðist það fyrst og fremst vera vegna þess að þeir þekkja ekki þann anda sem ríkir á slíku móti. Hefur UÍA sérstaklega hvatt Austfirðinga til þátttöku og einn liður í því er að fella niður skráningargjöldin. Tekið skal fram að þó mótið sé einkum ætlað fólki yfir fimmtugu þá er einnig boðið upp á greinar sem opnar eru öllum aldurshópum og má þar nefna frisbígolf, strandblak, garðahlaup, lomber, pílukast og golf.
 
Hér vill Síldarvinnslan hvetja starfsmenn sína til þátttöku í landsmótinu en hægt er að skrá sig út þriðjudaginn 25. júní. Allar upplýsingar um mótið er að finna á umfi.is (https:/www.umfi.is/verkefni/landsmot-50plus/) og þar er einnig unnt að skrá sig. Þeir sem vilja aðstoð við skráningu geta hringt á skrifstofu UÍA (471-1353), í Gunnar hjá UÍA (899-7888) eða Grétu Sóleyju hjá UÍA (865-8433). Einnig er hægt að hringja á skrifstofu UMFÍ (568-2929).
 
Hér eru taldar upp keppnisgreinar á landsmótinu og er öruggt að sérhver getur þar fundið einhverja grein sem hentar: Boccia, frjálsar íþróttir (hlaup, kúluvarp, langstökk, hástökk, kringlukast, spjótkast, lóðkast), frisbígolf, garðahlaup, golf, línudans, lomber, pútt, pönnukökubakstur, ringó, skák, stígvélakast, strandblak og sund.
                  
Starfsmenn Síldarvinnslunnar ! Tökum þátt í landsmótinu og skemmtum okkur vel !