Börkur NK landtengdur. Ljósm. Smári Geirsson

Í septembermánuði sl. var tekinn í notkun landtengingarbúnaður í Norðfjarðarhöfn sem er miklu aflmeiri en sá sem fyrir var. Síldarvinnslan kom upp búnaðinum en í honum felst að þegar uppsjávarskip landa afla til manneldisvinnslu fá þau raforku úr landi til að kæla aflann, dæla honum á land og sinna annarri raforkunotkun um borð í stað þess að framleiða orku með vélbúnaði sem nýtir olíu sem orkugjafa. Samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er þetta í fyrsta sinn sem fiskiskip eru landtengd með svo aflmikilli tengingu en hún flytur 500 kw. Síldarvinnslan vann að þessu verkefni í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU en búnaðurinn er framleiddur af ABB sem Johan Rönning hefur umboð fyrir. Kostnaðurinn við verkefnið var á annað hundrað milljónir króna.

Hingað til hafa einungis tvö skip haft búnað fyrir landtenginguna en það eru nýjustu skipin í uppsjávarflotanum; Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA. Unnið er að því að koma slíkum búnaði fyrir í Beiti NK og ætti því að vera lokið nú fyrir áramótin..

Landtengingarbúnaðurinn er allumfangsmikill. Ljósm. Smári Geirsson

Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að vel hafi gengið að taka landtengingarbúnaðinn í notkun. „Eftir að uppsetningu var lokið þurfti að prófa og stilla búnaðinn en að því loknu hefur allt gengið eins og í sögu. Þegar skipin koma til löndunar er bara sett í samband og allt virkar eins og því er ætlað að gera. Þetta er afskaplega jákvætt því að með landtengingunni er notaður umhverfisvænn innlendur orkugjafi í staðinn fyrir olíu,“ segir Grétar.

Nú hafa verið teknar saman upplýsingar um notkunina á búnaðinum frá því hann var tekinn í notkun í september og til mánaðamóta nóvember-desember. Á þessu tímabili hafa Börkur og Vilhelm Þorsteinsson notað 133.845 kwh við landanir en þeir hafa verið tengdir búnaðinum í samtals 24 daga. Skipin nota að meðaltali 230 kw á klukkustund við hverja löndun. Ef þau hefðu notað olíu í stað raforkunnar hefðu þau brennt 33.461 líter. Slík olíunotkun hefði þýtt um 90 tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið.

Nú er unnið að því að koma upp landtengingarbúnaði við fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Hafþór Eiríksson

Nú er unnið að stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað og í þeirri framkvæmd er gert ráð fyrir uppsetningu landtengingarbúnaðar við hana. Þegar afla er landað í fiskimjölsverksmiðju dæla skipin aflanum á land og því kemur landtengingarbúnaður þar einnig að góðum notum rétt eins og þegar landað er til manneldisvinnslu.

Reynslan af landtengingarbúnaðinum hefur hingað til verið afar góð og segja má að fyrstu skrefin hafi leitt til mikillar bjartsýni. Við blasir að þarna er umhverfisvænt verkefni á ferðinni og er full ástæða til að hvetja önnur fyrirtæki til að hyggja að því að koma upp búnaði sem þessum. Þegar öll uppsjávarskip sem landa í Neskaupstað verða komin með tilheyrandi búnað má gera ráð fyrir að olíunotkun minnki um að minnsta kosti 300.000 lítra á ári. Það munar um minna.