Barði NK að veiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Barði NK er væntanlegur til Neskaupstaðar með 1.100 tonn af makríl úr Smugunni um hádegisbil. Heimasíðan ræddi við Atla Rúnar Eysteinsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig fiskur þetta væri. „Þetta er þokkalegasti fiskur. Hann er á bilinu 350 – 390 grömm en í honum er einhver áta. Aflinn sem við erum með fékkst í níu holum. Fimm holanna eru okkar eigin og síðan fengum við úr fjórum holum hjá Bjarna Ólafssyni. Það er sífellt lengra að sækja makrílinn. Við vorum að veiðum um 450 mílur frá Norðfjarðarhorni, komnir norður fyrir sjötugustu gráðu. Og enn var makríllinn á hraðri leið norður. Það tekur okkur einn og hálfan sólarhring að sigla með aflann til Neskaupstaðar og skipin sem nú eru að veiðum munu þurfa að sigla enn lengri leið. Þó að sé langt að sækja er þó veiði en í fyrra á sama tíma var engin veiði og bölvað reiðileysi á flotanum. Það er bara þokkalegasta hljóð í okkur hér á Barðanum,“ segir Atli Rúnar.

Bjarni Ólafsson AK lagði af stað til Neskaupstaðar sl. nótt með tæp 1.200 tonn þannig að hann verður væntanlega kominn áður en löndun lýkur úr Barða. Síðustu fréttir voru þær að sl. nótt hefði verið góð veiði og fékk Börkur NK meðal annars 460 tonna hol.