Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Ástrún Jónasdóttir, launafulltrúi sjómanna hjá Vísi

Ástrún Jónasdóttir er fædd og uppalin í Grindavík og á þar sterkar rætur. Hún hóf störf hjá Vísi árið 1999 og hefur starfað hjá fyrirtækinu alla tíð síðan. Fyrst sinnti hún símsvörun en fljótlega færðist hún yfir í launavinnslu auk þess að fást við bókhald um tíma. Árið 2001 tók hún við starfi launafulltrúa sjómanna hjá fyrirtækinu. „Að sinna starfi launafulltrúa sjómanna gerir það að verkum að ég er í miklu sambandi við þá, einkum ræði ég oft við stýrimenn og skipstjóra. Mér hefur ávallt líkað vel að hafa samskipti við sjómennina, enda eru margir þeirra búnir að vera lengi hjá Vísi, rétt eins og ég. Hjá Vísi starfa 106 sjómenn. Þetta eru allt afar góðir drengir og ég get vart hugsað mér þægilegri eða betri samstarfsmenn. Ég er búin að starfa hjá Vísi í rúmlega 23 ár og mér hefur ávallt líkað það afskaplega vel. Fyrirtækið er afar góður vinnustaður og að mínu mati gæti mórallinn innan þess vart verið betri. Ég tel mig vera heppna að hafa starfað hjá Vísi í þetta langan tíma og notið samvista við allt það góða fólk sem hefur starfað hjá fyrirtækinu eða tengst því,“ segir Ástrún.