Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag. Síðan var tekið tveggja daga stopp og mun skipið halda á ný til veiða síðdegis í dag. Jón Valgeirsson skipstjóri sagir að aflinn í síðasta túr hafi verið blandaður. „Þetta var mest þorskur, koli og ýsa. Við fiskuðum í túrnum á Lónsbugtunni, í Sláturhúsinu og enduðum á Pétursey. Veðrið var afar rysjótt; frá því að vera í þokkalegu lagi og upp í það að vera kolvitlaust. Veðurfarslega hefur byrjun þessa árs verið sú leiðinlegasta á öllum mínum sjómannsferli. Það hefur hreint út sagt verið helvítis brælufargan. Á móti kemur að það hefur aflast ágætlega það sem af er árinu. Febrúar hefur verið mjög góður til þessa og það virðist vera bullandi fiskgengd. Veðrið hlýtur að fara að lagast úr þessu, það getur bara ekki annað verið. Þetta verður ekki svona endalaust,“ segir Jón.
Gullver NS mun landa um 60 tonnum á Seyðisfirði í dag eftir stutta veiðiferð.