Loðnuvertíðinni lauk í síðustu viku en þá gáfust skipin endanlega upp á að leita loðnunnar. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var rúmlega 127 þúsund tonn en í fyrra var kvóti þeirra 463 þúsund tonn. Því má segja að vertíðin hafi valdið vonbrigðum og reynst fyrirtækjunum og þjóðfélaginu heldur rýr; gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti loðnuafurða á vertíðinni sé tæplega 12 milljarðar á móti 34 milljörðum í fyrra.
Afli skipa Síldarvinnslunnar á vertíðinni var sem hér segir:
Börkur eldri 5.344 tonn
Börkur nýi 2.048 tonn
Beitir 3.589 tonn
Birtingur 5.134 tonn
Alls veiddu skipin því 16.115 tonn. Tekið skal fram að áhöfn Beitis stundaði veiðar á Birtingi hluta úr vertíðinni á meðan lagfæringar á Beiti fóru fram.
Alls tók Síldarvinnslan á móti 45.000 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni ef með eru talin 3000 tonn af sjófrystri loðnu sem landað var í frystigeymslur fyrirtækisins í Neskaupstað.
Alls voru fryst um 10.200 tonn af loðnu fyrir ýmsa markaði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, þar af voru liðlega 400 tonn hrogn. Þá voru unnin um 900 tonn af hrognum í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ.
Fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og í Helguvík tóku á móti tæplega 32.000 tonnum af loðnu á vertíðinni en verksmiðjan á Seyðisfirði var ekki nýtt. Móttekin loðna verksmiðjanna var sem hér segir:
Neskaupstaður 16.029 tonn
Helguvík 15.942 tonn
Frystar afurðir vertíðarinnar hjá Síldarvinnslunni námu samtals rúmlega 11 þúsund tonnum en afurðir fiskimjölsverksmiðjanna tæplega 8.200 tonnum.