Ísfisktogarinn Bjartur kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með um 50 tonna afla og var uppistaðan ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að bölvanlega hafi gengið að fiska ufsa og karfa í veiðiferðinni en hins vegar sé auðvelt að veiða þorsk víðast hvar. Í veiðiferðinni var farið allt frá Breiðdalsgrunni og vestur á Kötlugrunn en alls staðar var lítið að hafa af þeim tegundum sem átti að fiska. „Það var eitt gott við þennan túr“ sagði Steinþór,“ það var blíðuveður allan tímann og það er alveg nýtt því veturinn hefur verið þrautleiðinlegur veðurfarslega.“
Síðustu túrar Bjarts á undan þessum hafa hins vegar gengið afar vel og hefur hann gjarnan komið að landi með 90-100 tonn og aflinn að meiri hluta til verið þorskur.