Starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað gæða sér á gulrótunum frá Stefáni.  Ljósm. Smári GeirssonÁ Akurseli í Öxarfirði eru ræktaðar lífrænar gulrætur í stórum stíl og eru þær þekktar fyrir bragðgæði. Uppskeran í ár mun vera um 130 tonn. Við ræktunina er enginn tilbúinn áburður notaður en í stað hans er notað fiskimjöl frá Síldarvinnslunni í Neskaupstað sem er sérstaklega vottað til lífrænnar ræktunar ásamt höfrum sem bændurnir í Akurseli rækta sjálfir. Þá er lögð áhersla á að akurinn sé vökvaður með vatni úr Jökulsá á Fjöllum sem fellur til sjávar spölkorn frá Akurseli. Nánast öll uppskeran frá Akurseli er seld í verslunum Hagkaupa og Bónus og er eftirspurn eftir þessari gæðavöru mikil og vaxandi.

Stefán Gunnarsson bóndi í Akurseli segir að þegar unnt var að kaupa vottað fiskimjöl til lífrænnar framleiðslu hafi skapast forsendur til hinnar lífrænu ræktunar á gulrótunum. Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er eina verksmiðjan á landinu sem hefur slíka vottun og fiskimjölið sem notað er í Akurseli er keypt þaðan. „Við höfum sinnt þessari lífrænu ræktun í 4-5 ár“, segir Stefán,“og allan þann tíma höfum við fengið fiskimjölið frá Neskaupstað.  Það hefur verið einstaklega gott að eiga viðskipti við starfsmenn Síldarvinnslunnar og þeir hafa allt viljað fyrir okkur gera bæði hvað varðar afgreiðslu og umbúðir“. Að sögn Stefáns  anna þau á Akurseli ekki eftirspurn í ár enda líki framleiðslan afar vel.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir það mikið gleðiefni að framleiðsla verksmiðjunnar skuli notuð til lífrænnar ræktunar. Hann upplýsir að í vor hafi verið seld rúmlega 8 tonn af lífrænu mjöli til Akursels og mjög ánægjulegt sé að eiga samskipti við fólkið þar. „Við fáum líka send sýnishorn af framleiðslunni á Akurseli með reglulegu millibili og þá er veisla hjá okkur. Þessar gulrætur eru einstaklega safaríkar og bragðgóðar og það verður enginn svikinn af þeim. Um daginn kom hér fullur poki af gulrótum og hann hvarf eins og dögg fyrir sólu – menn hakka þær í sig“.