Ísfisktogarinn Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag. Aflinn er 108 tonn og þar af er karfi um það bil 50 tonn. Frystihúsið á Seyðisfirði er í sumarfríi þannig að allur aflinn er fluttur burt. Steinþór Hálfdánarason var skipstjóri í veiðiferðinni og spurði heimasíðan hann hvernig túrinn hefði gengið. „Túrinn byrjaði ekkert sérstaklega vel. Það varð óhapp um borð hjá okkur og við þurftum að fara í land með mann sem slasaðist. Sem betur fer reyndust meiðsli hans ekki alvarleg. Við lentum einnig í bölvaðri brælu í túrnum. Það liggur við að sé hörkubræla í hverjum túr. Hann lá í 30 metrum um tíma og þetta er einum of mikið af því góða svona yfir sumarið. Það er sumarbrælutíð. Við vorum í túrnum að veiða í Berufjarðarálnum, á Papagrunni og einnig á Gerpistotunni. Seinni hluti túrsins var bara ágætur og karfaaflinn býsna góður,“ segir Steinþór.
Gullver mun halda á ný til veiða á föstudag.