Karl Jóhann Birgisson hefur látið af störfum hjá Síldarvinnslunni. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

Þegar nýr Börkur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 3. júní sl. lauk starfsferli Karls Jóhanns Birgissonar hjá Síldarvinnslunni. Hann hafði þá starfað samfellt hjá fyrirtækinu í 36 ár og hafði reyndar áður verið skipverji á Síldarvinnsluskipum. Karl Jóhann er borinn og barnfæddur Norðfirðingur, menntaður plötu- og ketilsmiður. Heimasíðan ræddi við Karl Jóhann á dögunum og fræddist þá um starfsferil hans og framtíðaráform.

Geturðu sagt okkur stuttlega frá námsferlinum?

Já, það get ég. Árið 1969 hélt ég til Færeyja í þeim tilgangi að læra stálskipasmíði en þá grein var ekki hægt að læra á Íslandi. Ég fór á námssamning hjá skipasmíðastöðinni á Skálum og dvaldi þar í rúmlega eitt ár. Það var gott að vera í Færeyjum. Ég kynntist þar mörgu góðu fólki og lærði tungumálið. Ég held sambandi við marga Færeyinga og það hefur oft komið sér vel. Þegar ég kom heim fór ég á samning í plötu- og ketilsmíði hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað og því námi lauk ég árið 1973.

Hvað tókstu þér fyrir hendur að námi loknu?

Að náminu loknu réðst ég á skuttogarann Barða, fyrsta skuttogara Íslendinga. Það var mikil og góð reynsla. Ég hafði reyndar áður verið á sjó og var meðal annars á Birtingi árið 1968. Eins var ég á Magnúsi, Sæfaxa og Glófaxa á þessum árum.

Að því kom að ég fór í land og þá stofnuðum við Gylfi Gígja Málmiðjuna Gígju. Sá rekstur gekk illa og stóð ekki lengi.

Þá kom að því að konan mín, María Guðjónsdóttir, hæfi nám í hársnyrtiiðn. Það þurfti að gerast suður í Reykjavík og þar bjuggum við í fjögur ár. Lengst af á meðan við bjuggum fyrir sunnan starfaði ég hjá Sjólastöðinni í Hafnarfirði og þjónustaði þar Baader-vélar.

Þegar heim var komið festi ég kaup á vélbátnum Sigga Bjarna og hóf útgerð. Bátinn gerði ég út á árunum 1982-1985. Ég gerði bátinn meðal annars út frá Ólafsvík í tvær vertíðir.

Þegar útgerðarævintýrinu lauk réðst ég sem háseti á skuttogarann Birting en þar var faðir minn, Birgir Sigurðsson, skipstjóri.

Var það eftir þetta sem þú tókst við starfi framkvæmdastjóra Dráttarbrautarinnar?

Já, það var Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, sem réði mig í það starf, en Síldarvinnslan hafði Dráttarbrautina á leigu. Það var í lok ársins 1986 sem ég tók við starfinu og ég gegndi því allt til ársins 2002 en þá tók G. Skúlason við rekstri Dráttarbrautarinnar.

Þegar ég hætti hjá Dráttarbrautinni hóf ég störf á útgerðarsviði Síldarvinnslunnar og það var minn starfsvettvangur allt til loka. Þarna starfaði ég meðal annars með Freysteini Bjarnasyni og Gunnþóri B. Ingvasyni og starfið var bæði fjölbreytt og gefandi. Eftir að Gunnþór tók við sem forstjóri Síldarvinnslunnar árið 2007 varð ég rekstrarstjóri útgerðarinnar.

Var rekstrarstjórastarfið alltaf auðvelt?

Nei, blessaður vertu. Eins og gerist og gengur voru stundum erfiðir tímar. Mér leiddist hins vegar aldrei í vinnunni. Það var alltaf meira en nóg að gera og þegar upp er staðið eru jákvæðu minningarnar yfirgnæfandi. Ég kveð starfið mitt afskaplega sáttur og það hefur ávallt verið gott að starfa hjá Síldarvinnslunni. Mér þykir virkilega vænt um fyrirtækið og veit að það á bjarta framtíð.

Síðasta verkefni Karls Jóhanns var að fylgjast með smíði nýs Barkar NK. 
Ljósm. María Guðjónsdóttir

Var ekki síðasta verkefnið þitt að fylgjast með smíði nýs Barkar?

Jú, og líklega var þetta lokaverkefni það ánægjulegasta af þeim öllum. Ég dvaldi í Skagen í Danmörku í rúmlega hálft ár og fylgdist með smíðinni. Ég var alls ekki einn þarna því vélstjórarnir og snillingarnir Jóhann Pétur Gíslason og Hörður Erlendsson gegndu mikilvægu hlutverki á staðnum. Karstensens skipasmíðastöðin er algjört fyrirmyndarfyrirtæki og það var unun að fylgjast með hvernig staðið var að málum. Öll samskipti við Danina voru einkar ánægjuleg og auðvitað er mikill munur á því að hafa umsjón með nýsmíði og að hafa umsjón með viðhaldsverkefnum eins og ég hafði oft gert. Í reyndinni var dvölin í Skagen sæludvöl og skemmtileg í alla staði. Að auki virðast svo allir vera alsælir með skipið.

Nú hefur þú látið af störfum vegna aldurs, hver eru framtíðarverkefnin?

Ég kvíði ekki verkefnaskorti. Nú mun ég að mestu sinna því sem veitir mér ánægju. Ég festi kaup á báti fyrir þremur árum og nú er kominn tími til að sinna honum og nýta hann. Það verður svo sannarlega skemmtilegt. Og svo ætla ég bara að njóta lífsins með Mæju minni. Það eru bjartir tímar framundan.