Bjartur NK.  Myndin er tekin á Breiðdalsgrunni. Ljósm. Þór JónssonBjartur NK. Myndin er tekin á Breiðdalsgrunni. Ljósm. Þór JónssonBjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað í morgun eftir þrjá daga á veiðum. Aflinn var um 70 tonn, að uppistöðu þorskur, ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að enginn vandi sé að fá þorsk og hafi hann fengist í þremur holum. Allt aðra sögu sé hins vegar að segja af ufsanum. „Við vorum í Berufjarðarál og Hvalbakshalli með stuttri viðkomu í Lónsdýpinu og leituðum að ufsa og reyndar einnig karfa. Ufsinn vill bara alls ekki sýna sig almennilega. Hann birtist einn og einn dag hingað og þangað í kringum landið en hann hefur varla sýnt sig hér eystra þó hans tími eigi að vera kominn. En það er með þetta eins og annað; það er ekkert annað hægt en bíða og vona,“ sagði Steinþór.
 
Jónas P. Jónsson, skipstjóri á Gullver NS, tók undir með Steinþóri en Gullver er á veiðum í Berufjarðarál. „Við fórum út á þriðjudagskvöld og komum til með að landa á mánudag. Hér er nóg af þorski og karfinn nuddast, en það vantar ufsann,“ sagði Jónas. „Staðreyndin er sú að það er miklu minna af ufsa í kringum landið en verið hefur. Það koma þó ufsaskot hér og hvar en yfirleitt vara þau í stuttan tíma,“ sagði Jónas að lokum.