Börkur NK hélt til síldveiða á föstudaginn og kom í nótt til Neskaupstaðar með 1.500 tonn. Ljósm. Smári Geirsson

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í nótt með 1.500 tonn af norsk – íslenskri síld. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig veiðin hefði gengið. „Hún gekk bara vel. Við fórum út á föstudag, leituðum í sólarhring og hófum síðan veiðar grunnt í Héraðsflóadýpinu. Þarna voru litlar torfur en þær voru þéttar og gáfu afskaplega vel. Aflann fengum við í fimm holum og var dregið í 2 – 5 tíma. Þetta er falleg síld sem þarna fæst, meðalþyngdin er 370 – 380 grömm. Það er nánast engin áta í síldinni þannig að hér er um fínasta hráefni að ræða til manneldisvinnslu. Það mun líklega taka eina tvo sólarhringa að landa aflanum en mér skilst að mikið af honum verði heilfryst. Þessi síldveiði byrjar vel og mér líst ágætlega á framhaldið,“ segir Hálfdan.

Þess skal getið að Beitir NK hélt til makrílveiða í Smugunni sl. föstudag.