Nú er unnið að því að ganga frá lóð fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað að afloknum umfangsmiklum framkvæmdum. Ljósm. Smári Geirsson

Að undanförnu hefur verið unnið að frágangi lóðarinnar við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Á síðustu árum hafa staðið yfir viðamiklar framkvæmdir í verksmiðjunni og í tengslum við þær þurfti að grafa upp lóðina til að koma fyrir ýmsum lögnum.

Nú er unnið við að slétta lóðina og er ráðgert að sá í hana fljótlega. Lóðin ætti því að líta ágætlega út þegar líður á sumarið. Síðan er eftir að skipta um lagnir í jörðu austan við verksmiðjuna þar sem eru bílastæði. Fljótlega verður ráðist í það verkefni en síðan er ráðgert að stækka bílastæðið og koma þar upp hleðslustöð fyrir bíla.

Síldarvinnslan vill leggja áherslu á að umhverfi starfsstöðva fyrirtækisins sé þannig að sómi sé að. Við framkvæmdir þarf oft að raska umhverfinu en þá skiptir máli að lagfæra raskið eins fljótt og mögulegt er.