Börkur NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 1.000 tonn af loðnu sem fara til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA landaði sl. sunnudag og er það önnur veiðiferð skipsins á vertíðinni.
 
Börkur NK er á loðnumiðunum og ræddi heimasíðan við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun. „Við erum komnir með um 900 tonn. Þetta er mjatl. Það er lítið að fá yfir nóttina en á daginn hafa skip verið að fá ágætis hol. Við fengum 470 tonn í gær eftir að hafa togað í um sjö tíma. Það var leitað í fyrrinótt og fram að hádegi í gær að aflokinni þriggja daga brælu. Skipin hafa verið að fá ágætis hol á daginn og það er loðna á allstóru svæði en hún hefur verið töluvert dreifð. Nú er hins vegar gott lóð hjá okkur og það er gott veðurútlit næstu daga. Við erum núna um 60 mílur norðaustur úr Langanesi,“ sagði Hjörvar.
 
Ráðgert var að grænlenska vinnsluskipið Polar Amaroq kæmi til Neskaupstaðar í dag og skipaði frosinni loðnu beint um borð í flutningaskip. Í ljós kom að ekkert pláss var fyrir skipið í Norðfjarðarhöfn og því var gripið til þess ráðs að láta umskipunina fara fram á Eskifirði. Staðreyndin er sú að á annatímum er Norðfjarðarhöfn of lítil þrátt fyrir að hún hafi verið stækkuð mikið á undanförnum árum. Umsvifin í höfninni á loðnuvertíð og einnig á makríl- og síldarvertíð eru oft þannig að þar skortir legurými. 
 
Það er oft þröng á þingi í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonÞað er oft þröng á þingi í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonGert mun vera ráð fyrir að tvö skip Hafrannsóknastofnunar haldi til loðnuleitar í dag. Þá er einnig ráðgert að Polar Amaroq haldi til rannsókna að lokinni löndun og jafnvel einnig Bjarni Ólafsson AK.