PA ad veidum TBPolar Amaroq á veiðum.

Bergmálsgögn frá loðnumælingum Barkar NK, Polar Amaroq og Hákonar EA sl. sunnudag sýna samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar 90 þúsund tonn af loðnu. Mælingin fór fram á svæðinu við Papey.

                Polar Amaroq hélt á ný til mælinga sl. mánudagskvöld og fylgist með loðnugöngunni í samráði við Hafrannsóknastofnun. Heimasíðan ræddi stuttlega við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra á Polar Amaroq í morgun og var fyrst spurt hvort hann teldi meira af loðnu á ferðinni en sést hafði sl. sunnudag. „Já, það er að bætast í þetta. Það var ágætt að sjá í gær, lóðin voru þétt en það var allt annað form á þessu en á sunnudaginn. Þarna er loðnan komin í heitari sjó og hún er heldur dreifðari og heldur sig dýpra en á sunnudag. Hún er líka á mun stærra svæði. Við byrjuðum núna að krussa gönguna í austurátt og síðan var farið yfir svæðið aftur. Loðnan er komin grynnra en var. Hún er á leiðinni upp í fjöruna á Lónsbugtinni. Við munum kanna hve langt vestur gangan nær og síðan munum við halda til Neskaupstaðar og senda gögnin á Hafrannsóknastofnun þar sem þau verða yfirfarin og metin. Þetta eru svo þung gögn að erfitt er að senda þau rafrænt. Síðan er spáin ekkert sérstök þannig að best er að fara að hafa sig í land fljótlega,“ segir Sigurður.