Gunnþór Ingvason að matreiða loðnu.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar tók sig til á dögunum og matreiddi dýrindis loðnurétt sem skrifstofufólki fyrirtækisins var boðið að gæða sér á.

Framkvæmdastjórinn var beðinn um að gera góða grein fyrir hráefninu og matreiðslunni svo aðrir ættu kost á að njóta þess úrvalsfæðis sem loðnan er.  Greinargerðin fylgir hér:

Loðnan er veidd af skipum Síldarvinnslunnar á miðunum við Ísland þar sem sjórinn er hreinn og tær.  Skipin hafa þrifið hráefnistankana vel fyrir veiðiferðina og búið sig sem best undir að flytja aflann að landi þar sem hann verður unninn til manneldis.  Úr nótinni er loðnunni dælt varlega um borð og flutt að landi í hráefnistönkum þar sem hún er geymd í sjó sem kældur hefur verið með RSW-kerfi skipsins.  Kælingin tryggir að loðnan er fersk og heilnæm þegar að landi er komið.

Ef nota á loðnuna til matreiðslu hér heima er hæfilegt magn sótt um borð í veiðiskipið eða í fiskiðjuverið sem annast pökkun og frystingu.